Teymi héraðsráðunauta alls staðar að af landinu munu á þriðjudag og miðvikudag fara á bæi á öskufallssvæðinu fyrir austan, ræða við bændur og meta með þeim aðstæður og þörf fyrir aðstoð vegna fóðuröflunar og beitar í vor og sumar. Það er Búnaðarsamband Suðurlands, Bændasamtökin og búnaðarsambönd um allt land sem standa að skipulagningu heimsókna ráðunauta auk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Alls munu rúmlega 20 ráðunautar koma að verkefninu frá flestum búnaðarsamböndum og BÍ. Ekki verður eingöngu farið á bæi þar sem öskufalls hefur orðið vart heldur einnig á svæði í nágrenni hamfaranna.
Ráðunautar munu hittast í Heimalandi kl. 9:00 á þriðjudagsmorgun og m.a. fara yfir reglur Bjargráðasjóðs og ræða þau úrræði sem eru fyrir hendi ásamt sérfræðingum. Hópurinn heldur síðan að Höfðabrekku í Mýrdal sem verður miðstöð ráðunautanna. Ráðgert er að skipt verði upp í 2-3 manna teymi sem deila á milli sín svæðum en heimsóknir til bænda standa frá hádegi og til kvölds á þriðjudag. Á miðvikudag munu ráðunautar leggja snemma í hann og starfa á svæðinu eftir þörfum. Farið verður á bæi undir Eyjafjöllum, í Mýrdal, Meðallandi, Álftaveri, Skaftártungu, Fljótshlíð og víðar eftir atvikum.
Í heimsóknunum verður m.a. farið yfir stöðuna á viðkomandi bæjum, úrræði Bjargráðasjóðs, húspláss, fóðurbirgðir og fóðurþörf ef gosið dregst á langinn. Í teymunum eru fagráðunautar á ýmsum sviðum, m.a. jarðrækt og búfjárrækt.
Hingað til hafa ráðunautar Búnaðarsambands Suðurlands staðið vaktina með prýði eystra en ljóst er að þörf fyrir ráðgjöf í tengslum við gosið er mikil. Sauðburður er víðast hafinn af krafti og bændur eru þessa dagana að velta fyrir sér áburðargjöf og gera áætlanir um fóðuröflun sumarsins.
Ætlunin er að eftir heimsóknirnar liggi fyrir gögn sem gefi raungóða mynd af því ástandi sem uppi er í landbúnaðinum á áhrifasvæði eldgossins úr Eyjafjallajökli.
Vettvangsstjórn verður á Höfðabrekku en þar geta bændur náð í hópstjóra í síma 863-4300 ef sértækar óskir eru um heimsóknir ráðunauta eða annað.