Ný reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu

Í byrjun árs var gefin út ný reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu (nr. 10/2008) til samræmis við samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007.Reglugerðin í heild.
Helstu breytingar sem gerðar hafa verið frá eldri reglugerðinni eru eftirfarandi:
Stjórnsýsla
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn mála samkvæmt nýju reglugerðinni um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Matvælastofnun fer með framkvæmd gæðastýrðar sauðfjárframleiðslu.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að gera samninga við eftirlitsaðila (ríkisstofnanir og/eða einkaaðila) um eftirlit og úttekt á landi sem nýtt er við gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Matvælastofnun er heimilt að annast öll þau verkefni sem lögð eru til þessa eftirlitsaðila.
Umsóknir og skráningar
Umsóknir eiga nú að berast beint til Matvælastofnunnar.
Umsóknum skal skila eigi síðar en 20. nóvember ef framleiðandi óskar eftir álagsgreiðslum fyrir næsta almanaksár. Ef framleiðandi hefur fallið úr gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu getur hann sótt um aftur vegna næsta árs og þá í síðasta lagi 20. nóvember.
Matvælastofnun heldur skrá yfir framleiðendur sem eru í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.
Bændasamtök Íslands sjá um að koma gæðahandbók til framleiðenda.
Skyldur framleiðenda við framleiðslu
Gæðahandbók er einfölduð nokkuð og Bændasamtök Íslands sjá um útfærslu hennar.
Skýrt kemur fram að sauðfé skuli njóta fullnægjandi aðbúnaðar, meðferðar og fóðrunar og að uppfylla þurfi kröfur um húsaskjól, aðbúnaðar og umhirðu sauðfjár til samræmis við reglugerð nr. 60/2000.
Fjárstofn skal merktur samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár nr. 289/2005.
Fjárstofn skal skráður í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands og lokaskil á skýrsluhaldi er í síðasta lagi 1. febrúar næsta árs. Nýir framleiðendur í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu sem ekki hafa verið þátttakendur í skýrsluhaldi þurfa að skila vorupplýsingum í síðasta lagi 20. júní á fyrsta ári.
Uppfylla skal skyldur um bólusetningar sauðfjár gegn garnaveiki.
Framleiðendur sem sótt hafa um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðlsu þurfa að sækja sérstakt undirbúningsnámskeið.
Landnýting framleiðenda þarf að vera sjálfbær….
Í viðauka I eru viðmiðunarreglur um mat á ástandi lands og landnýtingu og eru viðmiðunarmörk fyrir ástand heimalanda og upprekstrarheimalanda breytt þannig að hámarki megi vera 15 ha lands með lokaeinkunn E sem er land með miklu jarðvegsrofi og að hámarki megi vera 40 ha lands með lokaeinkunn D+E sem er land með talsvert og mikið rof.
Matvælastofnun og eftirlitsaðilar geta krafið framleiðendur um gögn til sönnunar á heimildum hans til nýtingar þess lands sem hann tilgreinir í umsókn sinni um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Eftirlit og ákvarðanir
Matvælastofnun tilkynnir framleiðenda eigi síðar en 31. júlí ár hvert ef hann uppfyllir EKKI skilyrði gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu og gefur framleiðenda jafnframt kost á að andmæla. Því næst tilkynnir stofnunin framleiðenda hvort hann uppfylli skilyrði aðildar og eigi þar með rétt á að fá álagsgreiðslur.
Álagsgreiðslur og gjalddagar
Greitt er álagsgreiðsla á sömu flokka og gert var í eldri reglugerðinni. Þ.e. gæðaflokkana E, U, R og O og fituflokkana 1, 2, 3 og 3+.
Gjalddagar eru þeir sömu, þ.e. 95% af álagsgreiðslum eru greiddar 25. nóvember fyrir framleiðslu janúar til október og 95% af álagsgreiðslum eru greiddar 20. desember fyrir framleiðslu í nóvember. Lokauppgjör er síðan 5. febrúar næsta ár.
Nýtt er í reglugerðinni að núna fá framleiðendur í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu fyrirframgreiðslu 15. mars sem nemur 35% af heildarálagsgreiðslum síðasta árs. Meðal skilyrða til að fá fyrirframgreiðslu er að framleiðandi hafi skilað haustskýrslu úr búfjáreftirliti og að hann hafi ekki tilkynnt að hann sé hættur í gæðastýringu. Fyrirframgreiðslan er síðan dregin frá við uppgjör sem fer fram 25. nóvember.
Falli framleiðandi úr gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu eða aðrar ástæður leiða til þess að fyrirframgreiðslan er byggð á röngum eða brostnum forsendum að hluta til eða öllu leyti ber honum að endurgreiða hana.
Framleiðendur sem eru aðilar að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu við gildistöku þessarar reglugerðar halda þeim rétti án sérstakrar umsóknar.
Í viðauka I eru viðmiðunarreglur um mat á ástandi lands og landnýtingu og í viðauka II er fyrirmynd að landbótaáætlun fyrir þá sem hana þurfa að gera.