Ný garnaveikireglugerð

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð nr. 911/2011 um garnaveiki og varnir gegn henni.  Hún leysir af hólmi reglugerð nr. 933/2007 um sama efni.

Á vef Landssamtaka sauðfjárbænda, saudfe.is er að finna samantekt á helstu breytingum á fyrri reglugerð.
Þær helstu eru:

MAST fer nú alfarið með umsjón og eftirlit með málaflokknum en ráðuneytið gerði það áður að hluta.
Í reglugerðinni eru nú fleiri almennar skilgreiningar s.s. hvað teljist garnaveikibær og hvað megi ekki flytja frá slíkum bæjum. Þá eru ný ákvæði um sótthreinsun og þrif á tækjum ef ætlunin er að nota þau á öðrum bæjum.
Þrengt er að heimildum til að láta aðra en dýralækna sjá um bólusetningu. Nú er það óheimilt nema að dýralæknir fáist ekki til verksins.
MAST fær heimild til að undanþiggja lömb bólusetningu sem slátra á fyrir 1. maí, en stofnuninni ber þá að skrá  sérstaklega einstaklingsnúmer viðkomandi gripa.
Tekið er í reglugerðina ákvæði um að MAST birti opinberlega lista yfir garnaveikibæi, en það er í samræmi við núverandi verklag.
Ný ákvæði eru um sýnatökur í sláturhúsum, fyrirkomulag rannsókna og tilkynningar á niðurstöðum til dýraeigenda.
Ákvæði í viðauka um verklag við bólusetningu eru felld úr reglugerðinni, en MAST er nú ætlað að gefa út samsvarandi reglur.

LS fékk reglugerðina til umsagnar og skilaði inn umsögn til ráðuneytisins. Ábendingar samtakanna rötuðu þó ekki í reglugerðina.

Allir bændur sem þurfa að bólusetja gegn garnaveiki eru eindregið hvattir til að kynna sér reglugerðina með því að smella hér..