Matvælaframleiðsla morgundagsins

0 (5)

Þekktur fyrirlesari frá Ástralíu, Julian Cribb, kemur hingað til lands og heldur erindi um fæðuöryggi og matvælaframleiðslu í heiminum í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar mánudaginn 17. október kl. 12:00-13:30.

Fæðuöflun fyrir sífellt fleiri jarðarbúa á tímum loftslagsbreytinga, umhverfisvandamála, vaxandi vatnsskorts og dvínandi framboðs af áburðarefnum verður einhver mesta áskorun sem mannkynið hefur nokkru sinni tekist á við. Í hnotskurn þarf að framleiða meira af mat til ársins 2060 en sem nemur fæðuöflun jarðarbúa frá upphafi. Spurt verður á fundinum hvernig þjóðir heims eru í stakk búnar að mæta þessum veruleika og hvað lönd eins og Ísland og hinar Norðurlandaþjóðirnar geta lagt af mörkum.

Á eftir erindi Julian Cribb verða pallborðsumræður undir stjórn Gríms Valdimarssonar, fyrrverandi forstöðumanns hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO).

Julian Cribb er sérfræðingur í miðlun vísindalegrar þekkingar og býr í Ástralíu. Hann gaf á síðastliðnu ári út bókina „The Coming Famine – The Global food crisis and what we can do to avoid it,“ sem hlotið hefur verulega athygli. Julian er reyndur fyrirlesari og hefur flutt fyrirlestra um þessi efni víða um heim en Íslandsheimsóknin er hluti af Evrópuferð hans.

Fundurinn fer fram á ensku og íslensku í bland. Aðstandendur eru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Landgræðsla ríkisins, Bændasamtök Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands. Jón Bjarnason, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar, ávarpar samkomuna í upphafi. Markmið fundarins er að efla umræðu um fæðuöryggi á Íslandi, hvernig við þurfum að bregðast við utanaðkomandi áhrifavöldum og hvaða sóknarfæri Ísland gæti átt í nýrri heimsmynd matvælaframleiðslu.

Allir eru velkomnir, aðgangur er ókeypis og hádegishressing í boði fyrir fundinn.