Mikilvæg atriði um hvernig standa skal að töku, meðferð og geymslu heysýna.

Grunnurinn að baki hagkvæmri fóðrun er að þekkja gæði, – orku- og efnainnihald fóðursins. Í þeim tilgangi tökum við heysýni og fáum efnagreind. Á komandi hausti munu Bændasamtökin og búnaðarsamböndin bjóða fleiri áhugasömum kúabændum að vinna fyrir og með þeim fóðuráætlanir í nýja NorFór-fóðurmatskerfinu, en undanfarin ár. Nýja NorFór fóðurmatskerfið gerir kröfu um greiningu á fleiri efnaþáttum en eldri fóðurmatskerfi. Á undanförnum árum hafa heysýni aðallega verið s.k. hirðingarsýni. Við notkun þessa nýja fóðurmatskerfis er æskilegra að sýnin séu tekin úr heyfóðrinu eftir að lágmarki 5-6 vikna verkunartíma. Spurningunni um hvort eigi að taka hirðingarsýni eða sýni úr verkuðu fóðri má svara þannig að: ef heyið er forþurrkað í meira en 50 % þurrefni nægir að taka hirðingarsýni en við minni forþurrkun, hvort sem hey er verkað í rúllu eða í stakk (sem bændur eru í einhverjum mæli að fara út í) er æskilegra að taka sýnin úr fóðrinu eftir verkun. Ástæðan er sú að í þurrlegu fóðri myndast ekki þær gerjunarafurðir sem verða til og mæla þarf í votara heyfóðri.

Hvað mikilvægasti þáttur fóðurmatsins er taka og frum-meðferð sýnisins sem á að efnagreina. Sjálf sýnatakan er ekki síður mikilvæg en sjálf efnagreiningin.

Um töku hirðingarsýna:
Taka hirðingarsýna er tiltölulega einföld og auðframkvæmanleg. Hana má t.d. framkvæma þannig að áður en byrjað er að taka saman til að rúlla eða múgsaxa, sprangar sýnistakinn horna á milli á spildunni, útbúinn góðum, sterkum, merktum plaspoka og grípur upp litla hey visk, – t.a.m. í 10. hverju skrefi (ekki velja heyviskarnar úr flekknum) og stingur í pokann. Að því búnu (þegar komið er rúmlega 1 kg í pokann) er plastpokinn lofttæmdur eins og framast er unnt, honum lokað tryggilega, hann settur í skugga og komið í frystigeymslu (frystikistu heimilisins) eins fljótt og kostur er. (Ekki fleygja sýnapokanum á spildujaðarinn og láta hann liggja þar í sólinni meðan rúllað er eða í ekilhúsi traktorsins). Gæta þarf þess vandlega að merkja sýnapokann spilduheiti eða númeri, og skrá bæði sláttu- og hirðingardag. Áður en sýnin eru send til greiningar þarf síðan að fylla út sérstakan fylgiseðil. Sérstakur seðill þarf að fylgja með NorFór-sýnunum. Þann fylgiseðil er unnt að nálgast hjá búnaðarsamböndunum en einnig er hann að finna og unnt að prenta hann út af hér.

Um töku heysýna úr verkuðu fóðri:
Markmiðið með töku og greiningu sýna úr verkuðu fóðri er að fanga þær efnabreytingar sem hafa átt sér stað við sjálfa verkunina. Æskilegt er að miða við 5-6 vikna verkunartíma frá hirðingu að lágmarki. Við votheysverkun í hóflega forþurrkuðu heyi eða sem tekið er beint af ljá myndast rokgjarnar fitusýrur, – gerjunarafurðir (ediksýra og propíonsýra (smjörsýra ef verkunin misferst)). Þær hafa áhrif á fóðurgæðin, – orkugildi fóðursins. Þegar tekin eru sýni úr verkuðu fóðri, hvort sem er rúllum eða stakk, er nauðsynlegt að nota þar til gerðan heybor. Nægir að taka 2-3 bora úr 3-4 rúllum hverrar spildu. Borað er í átt að miðju baggans og vel yfir hana. Þegar tekin eru sýni úr stakki eða flatgryfju er æskilegt að bora því sem næst gegnum hverja stæðu á 3-4 stöðum. Á sama hátt og þegar hirðingarsýni eru tekin er þeim komið fyrir í sterkum, merktum plastpoka, – og áður en honum er lokað er reynt að tæma úr honum allt loft. Rétt er að benda á að enn mikilvægara er að koma heysýnum úr verkuðu fóðri í kæli- eða frystigeymslu eins fljótt eftir töku og mögulegt er. Helst strax (innan við ½ klst frá töku sýnis). Það má alls ekki láta þau liggja á glámbekk í hita eða sólarljósi. Til þess að niðurstöður liggi fyrir á réttum tíma, – til vinnslu á fóðuráætlunum, er mikilvægt að koma verkuðum sýnum til efnagreininga eins fljótt eftir að þau eru tekin og kostur er.