Bændasamtökin kynna lágmarkskröfur í viðræðunum við ESB

0 (6)
Bændasamtök Íslands kynntu í dag með formlegum hætti kröfur sínar í yfirstandandi samningaviðræðum íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið. Um er að ræða svokallaðar varnarlínur sem eru alls sjö talsins. Þær eru gefnar út í viðauka ritsins „Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins“ sem kom út sama dag á vegum Bændasamtakanna en í því hefur Stefán Már Stefánsson lagaprófessor við Háskóla Íslands tekið saman helstu atriði sem felast í hinni evrópsku landbúnaðarstefnu.

Eiga uppruna sinn hjá íslenskum bændum
Að sögn Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, eru varnarlínurnar félagsleg ákvörðun íslensku bændastéttarinnar. „Varnarlínurnar eiga uppruna sinn í málefnalegri vinnu sem hefur farið fram síðustu ár en síðustu tvö búnaðarþing hafa m.a. haft þær til umfjöllunar. Við höfum líka rætt efni þeirra á fjölsóttum bændafundum um allt land síðustu misserin,“ segir Haraldur. Varnarlínurnar voru fyrst kynntar í kjölfar síðasta búnaðarþings en síðan þá hafa þær verið unnar ítarlegar, m.a. með tilvísunum og rökstuðningi í regluverk ESB. „Í þeim kemur fram að mikilvægt sé að meta hagsmuni íslenskra bænda og landbúnaðar í heild og með hliðsjón af byggðasjónarmiðum, neytendamálum og fæðuöryggi,“ segir Haraldur. Í framhaldi af ályktun búnaðarþings 2011 voru varnarlínur BÍ kynntar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur lýst fullum stuðningi við afstöðu bænda.

Á ekki að ræða samningsafstöðu Íslands með opnum hætti?
Aðspurður um það hvað sé framundan í ESB-vinnu Bændasamtakanna segir Haraldur að nú taki við kynning og að málinu verði fylgt hart eftir af hendi bænda. „Það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þróun mála og hagsmunagæslu fyrir Ísland hönd í komandi viðræðum. Svo virðist sem samningsafstaða Íslands eigi ekki að ræða með opnum hætti, heldur innan þröngra veggja samninganefndar embættismanna. Við þurfum öfluga málsvörn, enda hafa Bændasamtökin í langan tíma bent á að ekkert sé í „aðildarpakkanum“ nema reglur ESB,“ segir Haraldur.

Bókin er innlegg í faglega umræðu
Haraldur segir að það sé mikilvægt að málefnaleg umræða fari fram um sérstöðu og kröfur Íslands nú þegar samningaviðræðurnar eru formlega hafnar. „Bókin sem nú kemur út eftir Stefán Má Stefánsson lagaprófessor er ætlað að varpa skýru ljósi á það hvað landbúnaðarstefna ESB og Evrópska efnahagssvæðisins felur í sér. Bændasamtökin gefa bókina út en hún er aðeins hluti af viðamiklum upplýsingum og rannsóknum sem samtökin hafa unnið að um árabil,“ segir Haraldur.

Bókin Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins er fáanleg í bókaverslunum en einnig hjá útgefanda, Bændasamtökum Íslands, þar sem hún er á tilboðsverði til félagsmanna samtakanna. Varnarlínur BÍ ásamt ítarlegum rökstuðningi er jafnframt að finna hér á vef Bændasamtakanna, bondi.is.

Varnarlínur BÍ
1. Réttur Íslands til að vernda heilsu manna, dýra og plantna.
2. Frelsi til að styrkja landbúnað og innlendan úrvinnsluiðnað.
3. Heimild til að leggja tolla á búvörur frá löndum ESB.
4. Réttur til að tryggja félagslega stöðu og afkomu bænda.
5. Að Ísland verði skilgreint sem eitt svæði með hliðsjón af landbúnaði.
6. Réttur til sjálfbærrar nýtingar hlunninda og eðlilegra varna gegn rándýrum og meindýrum.
7. Eignarréttarlegri stöðu bænda og landeigenda verði ekki raskað og aðgengi að góðu ræktunarlandi tryggt.

Ítarlegri rökstuðning með varnarlínunum má nálgast hér.

//bondi.is