* Vilt þú rækta matjurtir fyrir þitt heimili, bæta árangur og/eða auka fjölbreytni þeirrar ræktunar sem þú ert með fyrir?
* Ert þú með ferðaþjónustu og vilt bjóða gestum þínum upp á ferskt grænmeti úr heimilisgarðinum?
* Stefnir þú á heimavinnslu afurða frá býli þínu þar sem heimaræktað grænmeti kæmi við sögu?
* Vilt þú rækta grænmeti í stærri stíl en til heimilisþarfa og setja á markað?
Ef svo er, lestu þá áfram!
Síðastliðin tvö ár hafa Búnaðarsamtök Vesturlands boðið bændum á starfssvæðinu aðstoð við að koma af stað eða bæta árangur í útimatjurtarækt. Talsverður áhugi hefur verið á þessu og hafa um 30 aðilar tekið þátt í þessu verkefni. Hér er horft til ræktunar á grænmeti og berjum sem ekki þarf að rækta í upphituðum gróðurhúsum til að ná viðunandi árangri. Þetta gætu t.d. verið kartöflur, gulrófur, gulrætur, káltegundir, salat, spínat, lauktegundir, kryddjurtir, jarðarber, berjarunnar og jafnvel ávaxtatré.
Aðstoð frá Búnaðarsamtökunum felst í heimsókn í apríl þar sem farið er yfir ræktunaráform þátttakanda og bent á viðeigandi fræðsluefni. Þátttakandi getur sent umsjónarmanni fyrirspurnir í tölvupósti yfir ræktunartímann. Fyrrihluta ágúst er þátttakandi heimsóttur aftur, litið á árangurinn og reynt að meta hvað hefði mátt gera betur. Jafnframt er bent á leiðir til nýtingar og geymslu á uppskerunni eftir því sem við á. Tekið hefur verið saman fræðsluefni um matjurtarækt sem þátttakendur fá sent í tölvupósti í nokkrum skömmtum frá mars til ágúst.
Ef ræktunaráhuginn er tendraður og þú gætir nýtt þér aðstoð við að koma hugmyndum þínum í framkvæmd, vinsamlega hafðu samband við Árna B. Bragason í síma 437-1215 eða ab@bondi.is fyrir 5. mars n.k. Þátttakendur greiða fyrir þátttökuna samkvæmt áætluðum tíma í verkefnið og er það u.þ.b. 5 klst vinna samkvæmt gjaldskrá BV.
Ef fyrri þátttakendum eða aðrir áhugasamir matjurtaræktendur er með stuttar fyrirspurnir um matjurtarækt verður því sinnt eins og almennri ráðgjöf án gjalds. Ef svörun fyrirspurna tekur meira en hálfa klukkustund eða óskað er eftir aðstoð við gerð ræktunaráætlunar, verður innheimt samkvæmt tímagjaldi.