Heyefnagreiningar 2012


Við viljum minna bændur á að taka heysýni í sumar til að átta sig á efnainnihaldi fóðurs og gera áætlanir fyrir komandi vetur í samræmi við það. Mikilvægt er að sýnin séu vel tekin til að þau gefi góða mynd af því fóðri sem á að gefa á komandi innistöðutímabili.

Ef tekin eru hirðingarsýni er best að taka þau á nokkrum stöðum á spildunni og blanda þeim svo saman í eitt sýni. Nægilegt er að sýnin séu um 0,3 til 0,5 kg. Ef ákveðið er að taka verkuð sýni (sem gefur betri mynd og er sérstaklega nauðsynlegt í votverkuðu heyi) skal það gert 6-8 vikum eftir að rúllurnar hafa verið plastaðar eða fóðrinu hefur verið komið fyrir í stæðu. Þegar tekin eru sýni úr rúllum/stórböggum er oftast nauðsynlegt að gata 2-3 rúllur af sömu spildu eða svipuðum spildum og búa til eitt sýni. Forsendan er auðvitað sú að rúllurnar/stórbaggarnir séu vel merktir! Búnaðarsamtök Vesturlands geta útvegað sýnatökubora fyrir þá sem á þurfa að halda.

Sýnin þurfa að vera vel merkt og mega ekki þorna. Koma skal sýnunum í frysti sem fyrst í vel lokuðum sterkum plastpokum þar til að þau fara í efnagreiningu. Gott er að afhenda sýnin við fyrsta tækifæri og senda sýnin frekar í tvennu lagi til að dreifa álagstímanum. Verð og afgreiðslutími fyrir heyefnagreiningar hjá LbhÍ mun verða birt í Bændablaðinu á næstunni. LbhÍ getur afgreitt fulla NorFor greiningu og er því ekki lengur nauðsynlegt að senda þau sýni úr landi. Hinsvegar stendur til boða að senda sýnin í efnagreiningu til Hollands í gegnum Lífland (hærra gjald fyrir efnagreininguna en afgreiðslutíminn er mun styttri).

Fylgiseðlar með upplýsingum um sýnin þurfa að fylgja hverju sýni og má nálgast þá á heimasíðu BV www.buvest.is undir liðnum eyðublöð. Taka skal fram að niðurstöður heyefnagreininga munu birtast á www.jörð.is og því verða sýnin að vera merkt með sama spildunúmeri og er á túnakortunum.

Þeir bændur sem óska eftir að fá NorFor fóðuráætlun í haust eru beðnir um að láta fylgja sýnunum sérstakan fylgiseðil vegna NorFor efnagreiningarinnar sem einnig má finna á heimasíðu BV.

Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Lenu hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands í síma 437-1215 eða með tölvupósti á netfangið lr@bondi.is.