Gæðastýringarnámsskeið – 8. nóvember næstkomandi

2342201382_e2136cfd28

Gæðastýring í sauðfjárrækt

Þeir sem eru í gæðastýringu í sauðfjárrækt þurfa að uppfylla skilyrði samkvæmt reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Þeir sem uppfylla þessi skilyrði fá greitt gæðastýringarálag á hvert kíló sem er lagt inn í afurðarstöð óháð því hvort kjötið er tekið til heimanota, heimavinnslu eða selt afurðarstöðinni. Í ár verða greiddar um 150 krónur á hvert innlagt kiló af dilkakjöti, nema fituflokka 4 og 5 og vaxtarlagsflokkinn P. Vakin er athygli á að allri fjáreigendur sem leggja inn fé til slátrunar í afurðastöð geta sótt um aðild að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.

Eitt af grunnskilyrðum fyrir þátttöku í gæðastýringu í sauðfjárrækt er að hafa sótt undirbúningsnámskeið.

Næsta námskeið í gæðastýringu í sauðfjárrækt verður haldið á Hvanneyri mánudaginn 8. nóvember n.k. Það hefst kl 10:00 fyrir hádegi og lýkur kl 18:00.
Þeir sem óska eftir að sækja fyrirhuguð námskeið eru vinsamlegast beðnir að skrá þátttöku til Bændasamtaka Íslands fyrir 2. nóvember. Unnt er að skrá þátttöku í síma 563-0300 eða á tölvupósti bella@bondi.is

Eftirtalin atriði eru skyldur framleiðenda við gæðastýrða framleiðslu:

Gæðahandbók.
Í gæðahandbók skal skrá eftirgreindar upplýsingar um framleiðsluaðferðir og aðstæður á sauðfjárbúi:
a. Áburðarnotkun.
b. Gróffóðuröflun og fóðrun á búinu.
c. Landnýtingu.
d. Lyfjakaup og lyfjanot.

Loks skal skrá í gæðahandbók aðrar upplýsingar sem tilgreindar eru í leiðbeiningum um skráningu. Skráning skal hefjast eigi síðar en í upphafi þess árs sem framleiðandi tekur upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Aðbúnaður og meðferð.
Sauðfé skal njóta fullnægjandi aðbúnaðar, meðferðar og fóðrunar, sömu kröfur og í þeim aðbúnaðarreglum sem eru í gildi fyrir allt sauðfé í landinu. .

Merkingar búfjár.
Fjárstofn skal merktur samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár.

Skýrsluhald.
Fjárstofn skal skráður í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands. Sauðfjárskýrslum hvers árs skal skilað eigi síðar en 1. febrúar næsta árs. Framleiðendur sem eru að hefja þátttöku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu en hafa til þess tíma ekki verið í skýrsluhaldi skulu senda vorupplýsingar úr sauðfjárskýrsluhaldi til Bændasamtaka Íslands eigi síðar en 20. júní.
Bændasamtökin annast útgáfu, viðhald og dreifingu skýrsluhaldsgagna og leggja fram leiðbeiningar um notkun þeirra. Miðað skal við að unnt sé að rekja uppruna og afdrif allra gripa í hjörðinni á einfaldan og öruggan hátt.

Bólusetning gegn garnaveiki.
Uppfylla skal skyldur til bólusetningar gegn garnaveiki.

Undirbúningsnámskeið.
Framleiðendur sem sótt hafa um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skulu sækja sérstakt undirbúningsnámskeið

Nánari upplýsingar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu má finna í reglugerð nr 10, 4. janúar 2008 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu með því að smella HÉR

Nýjir þátttakendur í gæðstýringu í sauðfjárrækt:
Nýir þátttakendur í gæðastýringu í sauðfjárrækt þurfa að sækja um aðild til Matvælastofnunar á þar til gerðum umsóknareyðublöðum fyrir 20. nóvember ef framleiðandi óskar eftir álagsgreiðslum fyrir næsta ár. Umsóknareyðublaðið má nálgast með því að smella ”HÉR

Þeir sem nú þegar eru með gæðastýrða sauðfjárframleiðslu er bent á að eyðublöð vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt má nálgast á heimasíðunni bondi.is með því að smella “HÉR