Fyrirkomulag sauðfjárskoðunar 2012


Framkvæmd sauðfjárskoðunar verður með sama hætti og undanfarin ár. Æskilegt er að bændur geti valið sér daga sem mest óháð sláturdögum þó það haldist að einhverju leyti í hendur. Dagaval óháð sláturdegi dregur m.a. úr pressu við líflambavalið og gerir það því skilvirkara.

Viðskiptavinir athugið að ekki verður skoðað hjá þeim sem eiga skuldir við BV frá árinu 2011 og eldri nema þær verði greiddar eða um þær samið.

Skipulag og pantanir
Helga Halldórsdóttir mun sjá um skipulagningu sauðfjárskoðunar og eru bændur hvattir til að hafa samband sem fyrst á skrifstofu BV í síma 437 1215 eða í gegnum netfangið bv@bondi.is ef þeir áætla að nýta sér þjónustuna. Skipulag fyrir Barðastrandarsýslur fer einnig í gegnum skrifstofuna á Hvanneyri.

Í Ísafjarðarsýslum mun Þorvaldur H. Þórðarson annast niðurröðun sauðfjárskoðunar í síma 456 6260 og gsm 848 3994 eða í gegnum netfangið stad@simnet.is. Einnig er hægt að koma til hans skilaboðum með því að hringja á skrifstofu BV.

Til að skipulag lambamælinga dag hvern standist eru bændur beðnir um að gefa upp nokkuð nákvæman hámarksfjölda við pöntun. Mikil fjölgun mældra lamba miðað við pöntun getur haft veruleg áhrif á skipulagningu dagsins. Búnaðarsamtökin áskilja sér rétt til að innheimta auka álag á viðkomandi bú verði um fjölgun frá pöntun að ræða sem raskar skipulagi dagsins. (+10 til 15 lhr eða +30 til 40 gimbrar eru 1 klst í frávik m.v. 1 starfsmann).

Skipulag verður eins og áður unnið í samvinnu starfsmanna BV og forsvarsmanna fjárræktarfélaga. Nauðsynlegt er að ákveðin svæði séu tekin fyrir á hverjum degi eða samliggjandi dögum þannig að dagsverk dómara og mælingamanna nýtist sem best og kostnaði bænda þar með haldið í lágmarki.

Að venju er mikilvægt að nægur mannskapur og góð aðstaða sé fyrir hendi, það er forsenda fyrir því að vel takist til við mælingarnar og skilar sér einnig í lægri gjaldtöku. Bændur eru því hvattir til að hafa samvinnu og samstarf við fjárragið ef mannskap er áfátt heima fyrir. Munið síðan eftir að hafa haustbókina til taks til uppflettingar og skoða kynbótaspá lambanna.

Eftirtaldir starfsmenn koma að skoðun á fé í haust:
Árni B. Bragason, Birta Sigurðardóttir, Friðrik K. Jónsson, Kristján Jónsson, Lárus G. Birgisson, Sigvaldi Jónsson, Svanborg Einarsdóttir, Torfi Bergsson og Þorvaldur H. Þórðarson.

Gjaldskrá
Gjaldskrá sauðfjárskoðunar er sú sama og fyrir aðra sérhæfða ráðgjöf hjá BV.
– Sérhæfð ráðgjöf og þjónusta fyrir bændur á starfssvæði BV kr. 4.600,- kr/klst.
– Almennur taxti, útseld vinna fyrir aðila sem ekki eru bændur á starfssvæði BV kr. 10.000,- kr/klst.
– Innheimt er að lágmarki fyrir 1/2 klst
– Innheimt er á hvern starfsmann sem að stigun og mælingum kemur

Þegar óskað er sérstaklega eftir vinnu á laugardögum eða sunnudögum eða ef óskað er eftir vinnu sem ætla má að verði ekki lokið kl. 19.00 reiknast 50% álag á tímagjaldið. Nauðsynlegt er að vinna við lambaskoðun og aðra þjónustu sem BV veitir fari sem mest fram á virkum dögum og að degi til þannig að kostnaður og álag á starfsfólk verði innan skynsamlegra marka.

Fjárræktarfélög geta keypt sameiginlegar sýningar (skoðun lamba og/eða veturgamalla hrúta) af BV á lægsta grunngjaldi og greiði fyrir í einni upphæð.

Vinnuseðlar verða skildir eftir hjá bændum þar sem fram koma vinnustundir sem greitt skal fyrir auk fjölda skoðaðra gripa (skipt eftir veturgömlum hrútum, lambhrútum og gimbrum).