Fréttatilkynning frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins

fllogo
Ársskýrsla Framleiðnisjóðs landbúnaðarins fyrir árið 2010 er komin út. Hún hefur að geyma yfirlit yfir starfsemi sjóðsins ásamt ársreikningi sjóðsins. Framleiðnisjóður hefur það hlutverk að efla nýsköpun atvinnu í sveitum og hvetja til hagræðingar í búvöruframleiðslunni. Sjóðurinn hafði 166 mkr. til ráðstöfunar á s.l. ári, þar af 148,3 mkr. af fjárlögum. Auk þess komu 22,5 mkr. til endurráðstöfunar af eldri fyrirheitum sem ekki hafði verið vitjað.  Tekjur af fóðurtollum voru engar en reglum um innheimtu þeirra var breytt á miðju ári 2006. Samþykkt framlög úr Framleiðnisjóði og samningsbundnar greiðslur námu  174,8 mkr. Reksturskostnaður var 21,4 mkr. sem er 5,4% hækkun frá fyrra ári en hafði þá lækkað um 11% á milli ára. Tekjuafgangur nam 6,3 mkr. og eigið fé Framleiðnisjóðs var i árslok 127,9 mkr. Í ársbyrjun 2008 var Garðávaxtasjóður, sem áður hafði verið gerður upp sérstaklega, sameinaður Framleiðnisjóði sbr. 75. gr. laga nr. 58/2007. Sú gerð hafði umtalsverð áhrif á eigið fé Framleiðnisjóðs til hækkunar það ár.
Framleiðnisjóði bárust 174 formleg erindi á árinu 2010. Af þeim hlutu 115 erindi afgreiðslu með fyrirheiti um fjárstuðning en öðrum var synjað eða ekki á verksviði sjóðsins. Nokkur erindi voru óafgreidd um áramót og enn önnur gáfu ekki tilefni til sérstakrar afgreiðslu. Langflest verkefni eru styrkt  þannig að krafizt er verulegs mótframlags umsækjenda, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félög eða opinbera aðila.

Í ársskýrslu Framleiðnisjóðs er gerð grein fyrir starfi sjóðsins á árinu 2010 og þeim verkefnum sem hann hefur heitið stuðningi við en helztu viðfangsefni sjóðsins eru rakin í 7. kafla. Þar er m.a. fjallað um samstarf sjóða Rannís og Framleiðnisjóðs við fjármögnun rannsóknarverkefna á sviðið landbúnaðar sem staðið hefur frá árinu 1992 til ársins 2009. Á árinu 2010 var ákveðið af hálfu FL að slá striki undir þetta samstarf, a.m.k. um sinn. Valda því einkum versnandi fjárhagsástæður FL en einnig að í seinni tíð hefur meira borið í milli í áherzlum sjóðanna, einkum eftir að Tæknisjóður Rannís lagðist af. Samtals hefur verið varið 1079 milljónum til þessa samstarfs á fyrrgreindu árabili framreiknað til núvirðis. Í 8.kafla er gerð sérstök grein fyrir þremur verkefnum en þau eru: a) Vaxtasprotar er samstarfsverkefni Framleiðnisjóðs og Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem hófst á árinu 2007. Hér er um að ræða ráðgjafar- og stuðningsverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum;  b) Starfsmenntasjóður BÍ en FL hefur um tveggja áratuga skeið stutt við bændanámskeið og endurmenntun á sviði landbúnaðar, lengst af með beinum hætti en nú með þeirri nýbreytni að stofnað hefur verið til sérstaks starfsmenntasjóðs Bændasamtakanna; c) átaksverkefni til fjölgunar sumarstarfa. Að baki 10. kafla er að finna yfirlit yfir öll gefin fyrirheit um fjárstuðning sem eru birt í töflum 5 og 6. Athygli skal þó vakin á því að ekki er þar með sagt að framlag  hafi verið greitt út. Styrkloforð fyrnast á tveimur árum sé þeirra ekki vitjað og kemur það fé til endurúthlutunar á næsta ári þar á eftir. Hins vegar er útborgun framlaga  háð framvindu verkefna og ekki verður heldur allt að veruleika sem að er stefnt og fyrr var nefnt. Samtala óhafinna framlaga er færð til skuldar í efnahagsreikningi en á móti standa nægar innistæður í eignahlið ársreikningsins. Að teknu tilliti til þessa og þess sem fyrr var sagt um sameiningu Garðávaxtasjóðs við FL er eigið fé sjóðsins 127,9 mkr.

Með starfi sínu á Framleiðnisjóður verulegan þátt í eflingu nýbúgreina og hagræðingu á sviði landbúnaðar.  Leitazt er við að ýta undir og styðja við þá nýsköpun og breytingu  búhátta sem er að verða í sveitum landsins. Margt hefur áunnizt og fjölbreytni í atvinnustarfsemi til sveita aukizt á undanförnum árum. Sú aðlögun hefur vissulega ekki verið sársaukalaus en það hefur verið hlutverk Framleiðnisjóðs að létta undir með þeirri þróun en einnig að styrkja það sem fyrir er. Í seinni tíð hefur stuðningur sjóðsins í vaxandi mæli beinst að viðfangsefnum sem varða þróun einstakra búgreina og landbúnaðarins í heild.  Á fjárlögum fyrir árið 2011 er sjóðnum  ætlaðar 15,3 mkr. sem er aðeins brot af því sem sjóðurinn hefur áður haft til ráðstöfunar.  Þótt eigið fé sjóðsins sé ríflegt hrekkur það skammt til þess að hann geti rækt hlutverk sitt sem fyrr. Vænta má að þessar aðstæður séu tímabundnar en tekið hefur verið tillit til þeirra við stefnumörkun sjóðsstjórnar fyrir komandi ár.

Ársskýrsluna ásamt ársreikningum Framleiðnisjóðs er að finna á vefsíðu sjóðsins eftir slóðinni www.fl.is. Þar er einnig að finna helztu upplýsingar um sjóðinn.
Nánari upplýsingar um starf  Framleiðnisjóðs landbúnaðarins (FL) veita:

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður FL, s. 895 8405 og
Þórhildur Þorsteinsdóttir á skrifstofu sjóðsins s. 430 4300

//fl.is