Búnaðarblaðið Freyja hefur göngu sína

Þann 6. ágúst sl. kom út fyrsta tölublað nýs búnaðarblaðs. Blaðið ber nafnið Freyja og er samvinnuverkefni þriggja einstaklinga sem töldu að bregðast þyrfti við skorti á fag- og fræðsluefni fyrir bændur og áhugafólk um landbúnað. Það er útgáfufélagið Sjarminn sem gefur blaðið út. Stofnendur Sjarmans og ritstjórar Freyju eru Axel Kárason, Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir en þau hafa öll stundað nám við Landbúnaðarháskóla Íslands og hafa mikinn áhuga á framgangi íslensk landbúnaðar.

Hið nýja búnaðarblað hefur það að markmiði að birta hagnýtan fróðleik og fagefni fyrir bændur, nemendur í landbúnaðarnámi og annað áhugafólk um íslenskan landbúnað. Í fyrsta blaðinu eru 10 greinar sem spanna mjög vítt svið innan landbúnaðarins, bútækni, loðdýrarækt, garðrækt og pistil um landbúnaðarframleiðslu almennt svo nokkur dæmi séu nefnd.

Fyrsta árið mun Freyja koma fjórum sinnum út, efni hvers blaðs verður nokkuð tengt árstíðunum hverju sinni. Hægt er að kaupa prentaða útgáfu af blaðinu, fyrir slíkt þarf að greiða 1.500 krónur. Þeir sem það vilja er bent á að hafa samband við einhvern úr ritstjórn blaðsins.

Hægt er að nálgast blaðið á heimasíðu útgáfufélagsins www.sjarminn.is, en fyrsta tölublaðið má einnig skoða með því að smella hér.