Ferskt kjöt á markað um miðjan ágúst

Vegna mikillar eftirspurnar og góðrar sölu undanfarið hafa sláturleyfishafar og LS ákveðið að flýta slátrun um tvær vikur en áformað er að bjóða upp á ferskt lambakjöt í verslunum upp úr miðjum ágúst.

Markaðsráð kindakjöts mun greiða bændum álagsgreiðslur sem nema allt að 2.000 krónum á hvert lamb, til að koma til móts við að lömbin eru léttari þegar svo skammt er liðið á haustið. Slíkar greiðslur hafa tíðkast um árabil í sama tilgangi en eru nú hærri en áður vegna góðrar sölu eins og að framan greinir.

Álagsgreiðslur MK verða kr. 2.000 pr. lamb í viku 33 (15.-19. ágúst) , kr. 1.500 í viku 34 (22.-26. ágúst)  og kr. 500 í viku 35 (29. ágúst-2. sept). Greitt verður á alla gæðaflokka lambakjöts.  Búast má við að sláturleyfishafar muni einnig bjóða upp á yfirborganir pr. innlagt kíló svo sem verið hefur, en þeir mun kynna slíkt hver fyrir sig,  jafnframt hvaða daga verður boðið upp á slátrun (frá 15. ágúst).  Bændur eru hvattir til að kynna sér það fyrirkomulag hjá þeim sláturleyfishafa sem þeir skipta við.

Sjá einnig nánari umfjöllun á vef Bændablaðsins og á vef Morgunblaðsins.

//saudfe.is