Þann 20. desember síðastliðinn voru samþykkt á alþingi lög nr. 164/2008 sem eru breyting á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003. 15. grein þeirra laga fjallar um skattlagningu ófyrnanlegra eigna svo sem greiðslumark, jarðaverð og hlunnindi. Í fyrri lögum stóð í 3.mgr. „Skattaðila er jafnan heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra tekna í stað söluhagnaðar skv. 2. mgr.“ Það var þessi málsgrein sem réði því að við sölu á t.d. greiðslumarki taldist helmingur söluverðs skattfrjáls og helmingur skattskyldur. Sú breyting sem var gerð nú fólst í því að í stað „ Skattaðila“ kemur „Mönnum utan atvinnurekstrar“ og verður sú breyting til þess að þessi grein á ekki lengur við bændur. Lagabreyting þessi tekur gildi frá og með framtalsári 2010 þ.e. tekjuárið 2009. Þetta þýðir að frá og með 1. janúar 2009 ber öll sala á greiðslumarki 37,2% tekjuskatt (100 % í stað 50 % áður) sem og hluti jarðaverðs og hlunninda við jarðasölu.