Bændur hafa boðað til opinna funda í tengslum við alþingiskosningarnar á fjórum stöðum á landinu fimmtudagskvöldið 16. apríl. Öllum framboðum er boðið að senda sína fulltrúa og ræða um landbúnaðarmál við bændur, starfsfólk í landbúnaðargeiranum og aðra áhugasama fundargesti. Fundirnir hefjast allir kl. 20:30 fimmtudagskvöldið 16. apríl og verða haldnir á Hótel Selfossi, Hlégarði í Mosfellsbæ, Hótel Borgarnesi og á Hótel KEA á Akureyri.
Tilvonandi alþingismenn verða spurðir ákveðinna spurninga sem m.a. snúa að fæðuöryggi, atvinnu í dreifbýli og hvaða stefnu þeirra flokkur hafi í landbúnaðarmálum. Forystumenn bænda halda stutt framsöguerindi en síðan munu frambjóðendur halda tölu um sín áherslumál og afstöðu gagnvart íslenskum landbúnaði. Á eftir verða umræður þar sem frambjóðendur sitja í pallborði.
Að tilefni kosninganna hafa Bændasamtökin gefið út bækling sem tengist viðhorfum bænda gagnvart ESB en sem kunnugt er hafa þau beitt sér gegn því að farið verði í aðildarviðræður við sambandið. Þá verður dreift á fundunum stuttu riti um mikilvægi landbúnaðar fyrir samfélagið þar sem fjallað er um fæðuöryggi, atvinnumál og ekki síst þær áskoranir sem landbúnaður stendur frammi fyrir á heimsvísu.
Á vefsíðu Bændasamtakanna má finna bæklingana “Landbúnaður skiptir máli” og “Íslenskur landbúnaður og Evrópusambandið”