Ágreiningur um tillögur um friðun svartfugls

lundi
Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í september sl. um verndun og endurreisn svartfuglastofna leggur m.a. til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin. Þetta kemur fram í skýrslu sem hópurinn hefur skilað af sér og umhverfisráðherra kynnti í ríkisstjórn í byrjun janúar.

Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir, atvinnu- og hlunnindaráðgjafi hjá Bændasamtökum Íslands hefur í framhaldi af þessu mótmælt þessum tillögum. Segir hún að með þessum tillögum sé verið að ganga á rétt landeigenda og annarra hlunnendanotenda. Þetta eigi að gera án þess að fyrir liggi rannsóknir á hvað verði um fugl sem flúið hefur t.d. frá Vestmannaeyjum í ætisleit. Í Vigur við Ísafjarðardjúp og í Grímsey á Skjálfanda hafi menn t.d. sjaldan séð eins mikið af lunda og í sumar. Bændur fyrir vestan og norðan verði fyrir umtalsverðu tjóni ef farið verði að þessum tillögum. Segir Guðbjörg að fara hefði átt aðra leið og semja við landeigendur en með lagabreytingu og því að friða fuglinn í fimm ár sé ljóst að reglum verði ekki breytt til baka. Þar með verði tekinn bótalaust af bændum mikilvægur hlunnindaréttur.

Í framhaldi af þessu hefur Guðbjörg óskað eftir því að allir veiðimenn og veiðifélög á svartfugli (langvíu, stuttnefju, álku, lunda og teistu) sem og eggjatínsluaðilar hafi samband við hana í gegnum netfangið ghj@bondi.is eða í 563 0300.