Vaxtasprotar á Vesturlandi

Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafa frá 2007 staðið sameiginlega að stuðningsverkefninu Vaxtarsprotum með það að markmiði að hvetja til fjölbreyttrar atvinnusköpunar í sveitum landsins.
Verkefnið nær til landsins alls en unnið er innan ákveðinna svæða hverju sinni. Á haustmánuðum 2010 er boðið upp á Vaxtarsprota á Vesturlandi. Unnið er í samstarfi við landbúnaðarráðunauta,
atvinnuþróunarfélög og aðra aðila úr stoðkerfi atvinnulífsins á viðkomandi svæði.
Fyrir hverja er verkefnið?
Verkefnið er opið öllum íbúum í sveit, óháð eðli viðskiptahugmynda, atvinnugreinum, eða reynslu þátttakenda á sviði atvinnurekstrar. Íbúar í þéttbýli geta einnig tekið þátt, en ábúendur á lögbýlum hafa forgang. Þátttakendur vinna með eigin viðskiptahugmyndir. Fulltrúum starfandi fyrirtækja er velkomið að taka þátt með það að markmiði að vinna að frekari framþróun eða mótun nýjunga í rekstri sínum. Þátttaka í Vaxtarsprotum er án endurgjalds.
Ferli verkefnisins
Vaxtarsprotar fylgja eftirfarandi ferli:
1. Kynning á verkefninu.
2. Fræðsla og leiðsögn við hugmyndavinnu og undirbúning viðskiptahugmynda (á námskeiði og með einstaklingsmiðaðri leiðsögn).
3. Kynning á möguleikum á fjárstyrkjum frá Impru og Framleiðnisjóði og leiðsögn við gerð umsókna.
4. Eftirfylgni og áframhaldandi leiðsögn.
Þátttaka í verkefninu ein og sér felur ekki í sér vilyrði fyrir fjárstyrkjum. Hvert og eitt verkefni verður metið með tilliti til verklagsreglna sem gilda um styrkveitingar hjá forsvarsaðilum verkefnisins. Virk þátttaka í fyrri stigum verkefnisins eykur hins vegar líkur á að verkefni séu vel undirbúin og þar með aukast líkur á styrkjum.
Leiðsögn og frekari upplýsingar
Á verkefnistímanum býðst þátttakendum einstaklingsmiðuð leiðsögn hjá starfsmönnum Impru og stuðningsaðilum í heimabyggð. Á haustmisseri 2010 er unnin í samstarfi við Búnaðarsamtök Vesturlands, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi.
Hér má nálgast dagskrá Vaxtasprota á Vesturlandi. Á heimasíðunni impra.is má nálgast nánari upplýsingar um Vaxtasprota á Vesturlandi. Erla Sigurðardóttir verkefnisstjóri hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð veitir nánari upplýsingar um verkefnið í síma 522-9491 eða gegnum tölvupóst erla.sig@nmi.is