Sauðfjársæðingar 2009 – Upplýsingar

Pantanir á sæði og óskir um notkun einstakra hrúta verða að berast í síðasta lagi fyrir kl. 14:00 síðasta virka dag fyrir sæðingu í síma 437 1215 hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands, fax 437 2015 eða netfang bv@bondi.is. Nauðsynlegt er að a.m.k. tveir hrútar til vara séu einnig nefndir. Ef séð er að nýting verði léleg á pöntuðu sæði þarf að tilkynna það (sími/tölvupóstur) til skrifstofu BV, fyrir kl. 9 að morgni sæðingadags svo sæðið geti nýst öðrum. (aðeins í tölvupósti um helgar). Að þessu sinni mun Árni B. Bragason hafa yfirumsjón með móttöku pantana.

Útsendingar á sæði frá stöðinni verða í alls 20 daga og munu byrja þann 30. nóvember og standa til 21. desember þó ekki sunnudagana 6. og 13. desember. Eins og fram kemur í meðfylgjandi skipulagier boðið upp á sæðingar með fersku sæði í a.m.k. fimm daga allsstaðar á þjónustusvæði BV auk daga (merktir F) sem eru s.k. frjálsir dagar í upphafi og í lok tarnarinnar en þeir eru opnir fyrir alla. Æskilegt er að þessir dagar verði vel nýttir til að jafna álag sem vill verða aðallega í miðvikunni.

Miklar líkur eru á að þessa daga geti bændur fengið nóg sæði úr “óska” hrútunum. Á ákveðnum svæðum á Vestfjörðum verður sætt að einhverju leyti með djúpfrystu sæði. Reiknað er með að bændur sæði sjálfir eða í samvinnu við aðra, enda hafi viðkomandi sótt námskeið um sauðfjársæðingar. Jafnframt er hægt að leita til forsvarsmanna fjárræktarfélaganna um ábendingar um mögulega sæðingamenn.

Dreifing sæðis verður með sama hætti og á síðasta ári og verða ferðir frjótækna kúasæðinganna notaðar eftir því sem hægt verður hverju sinni.

· Sunnan Hvalfjarðar verða auk ferða frjótækna nýttar ferðir til Reykjavíkur samhliða flugsendingum.
· Þeir sem vilja fá sæðisbrúsann að Hvanneyri eða láta skilja hann eftir á N1 skulu geta þess samhliða sæðispöntun.
· Á Snæfellsnesi sunnanverðu verða sæðisbrúsar skildir eftir á einhverjum bæ sem er að sæða viðkomandi dag og aðrir bændur sækja þangað.
· Á Snæfellsnesi norðanverðu verður Hraunháls dreifingarmiðstöð nema um annað sé samið.
· Sæðisbrúsar sem fara í Dalina og í A-Barð verða skildir eftir í merktum kössum annarsvegar í Samkaupum í Búðardal og hinsvegar á Skriðulandi í Saurbæ.
Tómum brúsum skal skila á sömu staði. Opnunartími framangreindra verslanna er:
Ø Samkaup í Búðardal: Virka daga kl. 9.00 – 22.00. Laugardaga kl. 11.00 – 20.00 og sunnudaga kl. 11.00 – 22.00.
Ø Skriðuland í Saurbæ: Virka daga kl. 9.00 – 22.00. Laugardaga og sunnudaga kl. 9.00 – 22.00.
·
Dreifing sæðis í V-Barðastrandarsýslu og Ísafjarðarsýslur er með flugi, Baldri eða öðrum tryggum hætti eftir því sem veður leyfir.

Nýtt fyrirkomulag er á skilum upplýsinga um sæddar ær hjá þeim sem eru með skýrsluhaldskerfið fjarvis.is. Frá og með þessu ári verður því gert ráð fyrir að öll skráning sæðinga fari fram strax að aflokinni sæðingu í þetta kerfi og færsla sæðingadagbóka heyri sögunni til nema hjá þeim sem ekki hafa enn fengið skráningaraðgang að fjarvis.is.

Mikilvægt er að viðkomandi bóndi/sæðingamaður sem skráir sæðingarnar (helst samdægurs) í fjarvis.is, sendi tölvupóst til BV um að upplýsingarnar hafi verið skráðar inn. Þeir sem nota áfram sæðingadagbækur verða að panta þær hjá BV samhliða fyrstu sæðispöntun og senda blöð úr þeim til uppgjörs og skráningar hjá BV að afloknum sæðingum. Jafnframt er hægt að skrá sæðingarnar í töflu sem er aðgengileg á heimasíðu BV, www.buvest.is, og þar undir Eyðublöð, Dagbók fyrir sauðfjársæðingar 2009 Taflan sendist síðan í tölvupósti sem viðhengi á bv@bondi.is . Ef framangreindar skráningar og skýrslur um sæðingar hafa ekki skilað sér í síðasta lagi fyrir áramót reiknast 10 % álag.
Að lokum eru bændur hvattir til að nýta sæðið vel.

Gjaldskrá fyrir sæði:
Aldrei er rukkað fyrir minna en 70% af pöntuðu sæði. Verð á hverjum skammti er eftirfarandi án vsk:
· Til bænda ……………………………………………….. 500 kr./sk.
· Til annarra en bænda (ekki búnaðargjaldsgreiðendur eða félagsmenn BV) …………………………………… 1.180 kr./sk.
· Til bænda og annarra sem annast sjálfir innheimtu og dreifingu, lágmark 100 skammtar ……………………. 425 kr./sk.