Raftur og Grábotni vinsælustu hrútarnir.

29 69
Þá er sæðistöku lokið á hrútastöðinni þetta árið og gekk bærilega að taka sæði, þó náðist ekkert sæði úr kollótta hrútnum Loga 07-825. Alls var sent út sæði í 24.260 ær og miðað við svipaða nýtingu og s.l. ár má ætla að um 16 þús. ær hafi verið sæddar.

Mest sæði var sent úr Rafti 05-966 eða 3.024 skammtar og hefur mjög trúlega aldrei verið sendir fleiri skammtar úr nokkrum hrút á einu hausti, og náðist að anna pöntunum flesta dagana. Raftur er nú fjórða haustið á stöð og hafa verið sendir úr honum 9.785 skammtar af fersku sæði þessi fjögur haust.

Næstir í röðinni af hyrndu hrútunum þetta haustið voru svo Grábotni 06-833 með2.328 sk. , Hólmi 08-839 1.614 sk. , Kjarkur 08-840 1.420 sk. og Hrói 07-836 1.402 sk. Úr kollóttu hrútunum var mest sent úr Neista 06-822 1.712 sk. Bolla 06-821 1.191, Undra 05-818 1.177 sk. og Vöðva 06-820 1.114 sk. Bolli var eini hrúturinn sem ekki náðist að anna pöntunum ef miðað er við heildarpöntun haustsins (fyrir utan Loga að sjálfsögðu).

Að lokum viljum við minna bændur á að skrá sæðingar inn í fjarvis.is eða að senda sæðingablöð sem fyrst til skráningar. Þeir sem eru með sæðingabrúsa frá BV eru beðnir um að senda þá til okkar.

Sauðfjársæðingastöð Vesturlands þakkar sauðfjárbændum fyrir gott samstarf og sendir bændum og öðrum viðskipavinum óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári.