Sauðfjárbúið í Skorholti hlaut verðlaun frá Félagi sauðfjárbænda

Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Borgarfirði var haldinn í liðinni  viku í kennslusal fjárhúsanna á Hesti. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa fluttu erindi þeir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands. Mæting var góð á fundinn og urðu ágætar umræður. Á fundinum veitti félagið sína árlegu viðurkenningu fyrir miklar framfarir í ræktunarstarfi í sauðfjárrækt síðustu ár. Þá viðurkenningu hlutu hjónin í Skorholti, Helga Rúna Þorleifsdóttir og Baldvin Björnsson.

Í umsögn Félags sauðfjárbænda segir:

„Ræktunarstarfið í Skorholti hefur verið stundað með markvissum hætti undanfarin ár og hefur árangurinn ekki látið á sér standa. Alhliða góðar framfarir í fjárræktinni þar sem saman fer afurðasemi fjárins og bætt vaxtarlag. Ekki má gleyma þeirri alúð sem þau hafa einnig lagt við ræktun mislita fjárins fyrir sömu eiginleika og með góðum árangri. Þessum góðu framförum hafa þau meðal annars náð með miklum og markvissum sæðingum, lambamælingum og skipulögðum afkvæmarannsóknum á hverju ári auk þess að nýta sér vel þær upplýsingar sem sauðfjárskýrsluhald BÍ býður uppá. Þau eru með ríflega 800 fjár á fóðrum og tilheyrandi fjölda lamba bæði vor og haust þarf mikla beit. Til að hámarka uppskeru túnanna hefur endurrækt verið framkvæmd eins og tök eru á, auk þess sem sáð er til grænfóðurs til haustbeitar með góðum árangri. Einnig hefur uppbygging þeirra hjóna á jörðinni hefur einnig vakið athygli og verið til fyrirmyndar.“

(Frétt af www.skessuhorn.is).