Málstofa LbhÍ – Samþætt kynbótamat íslenska hestsins

Málstofa verður haldin á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands í Ásgarði á Hvanneyri mánudaginn 12. janúar klukkan 15. Þar mun Elsa Albertsdóttir doktorsnemi í kynbótafræði við LbhÍ flytja erindi en rannsóknarverkefni hennar ber heitið Samþætt kynbótamat íslenska hestsins – kynbóta og keppniseiginleikar. Hægt verður að fylgjast með erindinu á heimasíðu LbhÍ.  Sjá hér.

Margir ræktendur íslenska hestsins leitast við að framleiða góða keppnishesta en hafa hingað til ekki haft þau úrræði sem árangursrík ræktun grundvallast á. Það er meginmarkmið þessarar rannsóknar að bæta hér úr með því að koma á samþættu kynbótamati kynbóta- og keppniseiginleika þar sem enn fremur er tekið tillit til þess úrvals sem fyrir hendi er. Með rannsókninni fæst nauðsynleg vísindaleg þekking á keppnishæfni hrossa sem gerir kleift að byggja ræktun þeirra á sama trausta grunninum og ræktun kynbótahrossa gerir.

Samþætta kynbótamatið yrði einfaldlega viðbót og útvíkkun þess kynbótamats sem fyrir er. Önnur markmið rannsóknarinnar er að kanna forval hrossa fyrir kynbótadóm og keppni og áhrif þess á niðurstöður kynbótamatsins. Í heild er verkefninu ætlað að stuðla að nákvæmara og öruggara vali á kynbótahrossum og hraðari erfðaframförum.