Kennslu- og fræðsluefni um sauðfjárrækt aðgengilegt öllum

Landbúnaðarháskóli Íslands.

Um nokkurt skeið hefur verið í vinnslu kennslu- og fræðsluefni í sauðfjárrækt á vegum LBHÍ. Þetta efni er ætlað til kennslu í búfræðináminu við skólann og nýtist jafnframt sem fræðsluefni fyrir sauðfjárbændur og allt áhugafólk um íslenska sauðfjárrækt. Ákveðið var að vinna efnið sem netútgáfu og að hafa það aðgengilegt öllum á heimasíðu skólans. Hver og einn getur samt prentað út það efni sem hann vill lesa af blaði. Jafnframt er hægt að vista efnið niður svo hægt sé að skoða það og lesa í eigin tölvu án þess að vera nettengdur. Með því að hafa efnið á þessu formi verður mun auðveldara að uppfæra það og breyta eftir þörfum.

Það sem nú er orðið aðgengilegt hefur Árni Brynjar Bragason kennari við búfræðibraut LBHÍ tekið saman en notið liðsinnis Emmu Eyþórsdóttur, dósents við LbhÍ,  Sigurðar Sigurðarssonar dýralæknis og ráðunautanna Jóns Viðars Jónmundssonar og Ólafs R. Dýrmundssonar sem báðir starfa hjá Bændasamtökum Íslands.

Fyrsti kaflinn er kominn á heimasíðu LbhÍ. Ýtið hér til að sjá kafla um frjósemi, sæðingar og meðgöngu. Meira efni kemur inn fljótlega og tínist síðan inn frameftir árinu. Framtakið er styrkt af þróunarfé sauðfjárræktarinnar.