Hrútaþukl á Ströndum

Íslandsmeistaramót í hrútadómum verður haldið í áttunda sinn næstkomandi laugardag í í Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Um kvöldið fer síðan fram hið landsþekkta Þuklaraball í félagsheimilinu á Hólmavík með sveiflukónginum Geirmundi Valtýssyni.

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að Jón Viðar Jónmundsson, ráðunautur og einn æðsti sauðfjárspekúlant Íslands að því er fram kemur í tilkynningu, fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram.
Arnar S. Jónsson, framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins, segir að síðan reyni keppendur sig við matið á hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyni að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. „Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu fara hins vegar eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja.”

Í tilkynningunni segir Arnar að afar veglegir vinningar séu í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum. „Til dæmis hafa þrír efstu í vana flokknum undanfarin ár fengið meðal annars nokkra skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingastöð Vesturlands!”

Nánar er hægt að lesa um Íslandsmeistaramótið og ballið á heimasíðu Sauðfjársetursins með því að smella hér.

(Frétt tekin af www.visir.is)