Eins og kunnugt er mun Ráðgjafamiðstöð Landbúnaðarins (RML) taka við ráðgjafarstarfsemi Búnaðarsambandanna og Bændasamtakanna um þessi árámót. Nú þegar liggur fyrir töluverð undirbúningsvinna að stofnun fyrirtækisins og hugmyndir um yfirfærslu starfsmanna til hins nýja félags. Þrátt fyrir að ákveðin grunnvinna hafi farið fram þá er vegferð RML rétt að hefjast nú á nýju ári og margt sem eftir á að móta og taka ákvarðanir um.
Stjórn RML hefur ráðið helstu stjórnendur RML en þau munu verða staðsett á Akureyri, Hvanneyri og á Selfossi. Helstu stjórnendur eru:
– Framkvæmdastjóri: Karvel Lindberg Karvelsson, Hvanneyri
– Fagstjóri í búfjárrækt: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, Hvanneyri
– Fagstjóri í nytjaplöntum: Borgar P. Bragason, Hvanneyri
– Fagstjóri í rekstri, hlunnindum og nýbúgreinum: Runólfur Sigursveinsson, Selfossi
– Fjármálastjóri: Vignir Sigurðsson, Akureyri
– Starfsmannastjóri: Berglind Ósk Óðinsdóttir, Hvanneyri
– Verkefnisstjóri þróunar og samskipta: Helga Halldórsdóttir, Hvanneyri
– Verkefnisstjóri þekkingaryfirfærslu og erlendra samskipta: Gunnar Guðmundsson , Hvanneyri
Eftir áramót mun símsvörun verða fyrst um sinn hjá Búnaðarsamböndunum og Bændasamtökunum. Viðskiptavinir BV, bændur og aðrir hringja áfram í 437 1215. Ákvörðun um framtíðar fyrirkomulag símsvörunar verður tekin í janúar.
Öll þau verkefni sem starfsmenn eru að vinna að munu halda áfram eins og áður hefur verið þangað til að gengið hefur verið frá frekari verkaskiptingu á milli RML og Búnaðarsambandanna og Bændasamtakanna.
Gjaldtaka fyrir þjónustu verður með sama fyrirkomulagi á hverri starfsstöð og nú er, þangað til að annað verður tilkynnt og auglýst með nýrri gjaldskrá.
Engin breyting verður á starfsemi sauðfjár- og nautgripasæðinga og rekstri Sauðfjársæðingarstöðvar Vesturlands, þessi starfsemi verður áfram á vegum BV.
Sama starfsfólk og verið hefur hjá BV mun starfa áfram á skrifstofu BV ýmist hjá BV eða RML, Guðmundur Sigurðsson mun áfram gegna starfi framkvæmdastjóra BV í hlutastarfi.
Eins og fram kemur hér að ofan ættu bændur ekki að verða varir við miklar breytingar fyrst um sinn en allar frekari breytingar verða kynntar rækilega. Það er von okkar að með þessum breytingum verði um öflugri og markvissari leiðbeiningastarfsemi að ræða um land allt.