Ársuppgjör hefur nú verið keyrt í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar. Við viljum biðja þá sem færa mjólkurskýrslur í Huppu að yfirfara það vel og koma athugasemdum og/eða leiðréttingum á framfæri ef einhverjar eru hið fyrsta eða í síðasta lagi þann 21. janúar n.k. Athugasemdum eða leiðréttingum má koma á framfæri við Friðrik Jónsson (fj@bondi.is), Ingveldi H. Ingibergsdóttur (ihi@bondi.is) eða Sigurð Kristjánsson hjá BÍ (sk@bondi.is).
Ársuppgjör verður síðan keyrt að nýju mánudaginn 25. janúar n.k. og athugasemdir eða leiðréttingar verða því að berast fyrir þann tíma eigi þær að ná inn í lokauppgjörið. Að því uppgjöri loknu verða niðurstöður birtar og afurðatölum ársins 2010 verður ekki breytt eftir það.
Við minnum einnig á að skilafrestur mjólkurskýrslna verður áfram 10. hvers mánaðar fyrir næst liðinn mánuð þannig að búið haldist inni í gæðastýringu eða geti komist inn í hana að nýju hafi það fallið út. Einnig minnum við á að til þess að eiga rétt á gæðastýringargreiðslum þarf að skila kýrsýnum a.m.k. ársfjórðungslega.