Ályktanir frá aðalfundi BV

Á aðalfundi Búnaðarsamtaka Vesturlands sem haldinn var að Hlöðum 10. apríl s.l. voru eftirfarandi ályktanir samþykktar.

1. Aðalfundur BV haldinn á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd 10. apríl 2008 bendir á að hugmyndir um lækkanir á innflutningstollum á einstaka kjöttegundum ganga þvert á gefin fyrirheit stjórnvalda undanfarin ár, og myndu hafa mjög neikvæð áhrif á íslenska kjötframleiðslu og vinnslu þess.

Greinargerð:
Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan tollar og vörugjöld voru rýmkuð verulega á innfluttum kjötvörum og eru bændur því að glíma nú þegar við aukna samkeppni vegna þess, samhliða miklum hækkunum á aðföngum.

Þá væru slíkar lækkanir afar illa tímasettar nú þegar hyllir undir samkomulag um nýjan WTO-samning, sem ráða mun þróun heimsviðskipta með búvörur í framtíðinni og þar með um þróun tollverndar landbúnaðarafurða.

Jafnframt liggur fyrir Alþingi frumvarp sem mun rýmka enn fremur heimildir til innflutnings og er brýnt að gefa íslenskri búvöruframleiðslu möguleika á að aðlaga sig að breyttu starfsumhverfi vegna þess áður en lengra er gengið í lækkun tolla.

2. Aðalfundur BV haldinn á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd 10. apríl 2008 beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að tryggja það að innflytjendur á ósoðnu kjöti verðir gerðir ábyrgir fyrir þeim sjúkdómum sem hugsanlega koma með innflutningi.

Þá tekur fundurinn undir meðfylgjandi ályktun Búnaðarþings 2008 og leggur áherslu á að verkinu verði flýtt sem kostur er:

„Búnaðarþing 2008 fagnar því að vinna er komin vel á veg við sérstaka upprunamerkingu á íslenskum búvörum. Skýrar reglur og öflugt eftirlit þarf að vera með notkun merkisins til að tryggja áreiðanleika þess. Gera þarf tímasetta aðgerðaráætlun við innleiðingu og kynningu á merkinu og tryggja til þess fjármagn. Jafnframt að skerpt verði á reglum um merkingu upprunalands innfluttra landbúnaðarafurða. Þingið leggur áherslu á að verkinu verði hraðað“.
Greinargerð:
Í ljósi aukins innflutnings á matvælum er brýnt að innleiða merkingu á íslenskar búvörur. Ljóst er að merkingar á innfluttri búvöru gefa ekki alltaf rétta mynd af uppruna hennar, heldur frekar um vinnslu- eða pökkunarland. Á vegum BÍ, í samráði við búgreinar, er unnið að því að fá að gera fánarönd Sambands garðyrkjubænda að merki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir.
Fylgja þar verkefninu vel eftir og móta reglur um notkun merkisins og eftirlit með notkun þess. Réttur neytenda er að geta treyst upplýsingum um íslenskan uppruna landbúnaðarvara. Tryggja þarf kröftugt kynningarstarf og fjármagn til að ljúka verkefninu.“

3. Aðalfundur BV haldinn á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd 10. apríl 2008 telur áframhaldandi sérhæfingu í ráðgjafaþjónustu nauðsynlega og æskilegt væri að taka til skoðunar enn frekari stækkun þjónustusvæða og hvetja til viðskipta bænda þvert á svæðin.

4. Aðalfundur Búnaðarsamtaka Vesturlands haldinn að Hlöðum 10. apríl 2008 samþykkir að gera könnun meðal félagsmanna um magnkaup á brunaviðvörunarkerfi í útihús að undangengnum athugunum á magntilboðum frá seljendum slíkra kerfa. Einnig verði kannað hvort og þá hvernig tryggingarfélög vilji taka þátt í verkefninu.

5. Aðalfundur Búnaðarsamtaka Vesturlands haldinn á Hlöðum 10. apríl 2008 samþykkir að fela stjórn BV að kanna með leigu á bjórframleiðslutæki.

6. Aðalfundur BV haldinn á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd 10. apríl 2008 hvetur afurðarstöðvarnar til að birta verðskrá sauðfjárafurða hið fyrsta.
Greinargerð: Margir sauðfjárbændur standa frammi fyrir miklum erfiðleikum í rekstri, til að mynda eru sumir ekki enn búnir að panta áburð. Því er þeim mikilvægt að fá birta verðskrá sauðfjárafurða hið fyrsta.

7. Aðalfundur BV haldinn á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd 10. apríl 2008 beinir því til stjórnar BV að ekki skuli vera valdir inn hrútar á sauðfjársæðingastöðvar sem eru undir landsmeðaltali í kynbótamati.

8. Aðalfundur BV haldinn á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd 10. apríl 2008, heimilar að samtökin stofni einkahlutafélag, er taki yfir bókhaldsþjónustu á vegum samtakanna, svo og önnur þau verkefni er henta þykir. Hlutafélagið verði að meirihluta í eigu búnaðarsamtakanna.

Greinargerð.
Hluti af starfsemi Búnaðarsamtakanna, s.s. bókhaldsþjónusta, heyrir undir samkeppnislög og gæti það kallað á fjárhagslegan aðskilnað í framtíðinni. Hlutafélagsformið gæti verið hentugt í slíkum tilvikum, auk þess að gefa sveigjanleika hvað varðar eignarhald og jafnvel kjaramál. Því er æskilegt að fyrir liggi heimild aðalfundar BV til stofnunar einkahlutafélags ef og þegar stjórn samtakanna telur þörf á.

9. Aðalfundur BV haldinn á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd 10. apríl 2008 heimilar stjórn BV að selja húsnæði sauðfjársæðingarstöðvarinnar og festa kaup á núverandi húsnæði Nautastöðvar BÍ, fáist hún á viðunandi verði og flytji þangað starfsemi sauðfjársæðingarstöðvarinnar.