Heimavinnsla mjólkurafurða – Ostagerð

ostur

Út er komin bókin Heimavinnsla mjólkurafurða – Ostagerð. Bókin byggir á efni sem tekið var saman vegna námskeiða sem Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands hélt á fyrri hluta ársins 2009. Þórarinn Egill Sveinsson mjólkurverkfræðingur fór þá víða um land og kenndi fólki undirstöðuatriði í ostagerð í heimahúsum. Fljótt kom í ljós mikill áhugi á ostagerð og var þess farið á leit við Þórarinn Egil að hann setti saman bók um efnið. Starfsmenntaráð styrkti útgáfuna. Bókin Ostagerð er 76 blaðsíður.

Megináherslan er lögð á ostagerð úr kúamjólk og mjólk sem hráefni. Gefnar eru upp nokkrar grunnuppskriftir, s.s. af skyri, jógúrti, kotasælu, fetaosti, mascarpone, mysuosti og ýmsum hleypiostum eins og parmesan og camembert. Þórarinn Egill segir í formálsorðum mikilvægt að fólk sé óhrætt við að prófa sig áfram og búa til eigin uppskriftir. Til þess þarf sjaldan annan búnað en til er á venjulegu heimili. “Heimavinnsla mjólkur er skemmtileg hlið matargerðar,” segir höfundurinn. “Raunar er allt leyfilegt og um að gera að prófa sem flestar samsetningar og aðferðir.”

Þeir sem vilja eignast þessa bók geta haft samband við Ásdísi Helgu Bjarnadóttur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Netfangið er asdish@lbhi.is en síminn 433 5000. Veita þarf upplýsingar um fullt nafn, kennitölu, heimilisfang og síma. Bókin verður þá send til viðkomandi ásamt reikningi. Bókin er einnig til sölu í Bóksölu LbhÍ á Hvanneyri og á Reykjum í Ölfusi.

Bókin kostar kr. 2.500. Athugið að sendingarkostnaður er kr. 250 sem bætist við verð bókarinnar.