Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða var haldinn þann 16. apríl sl. Fundargerð aðalfundar BSV má nálgast í heild sinni inn á heimasíðunni www.buvest.is undir fundargerðum/aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða 2011.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:
Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 lýsir yfir fullum stuðningi við framkomna tillögu Búnaðarþings 2011 varðandi andstöðu við inngöngu Íslands í ESB.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 lýsir yfir stuðningi við ályktun Búnaðarþings 2011 um andstöðu við fyrirhugaða sameiningu ráðuneyta.

Ályktun frá Búnaðraþingi 2011
Sameining ráðuneyta
Markmið

Búnaðarþing 2011 mótmælir fyrirliggjandi hugmyndum um sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Hins vegar eru samtök bænda tilbúin til viðræðna um tilfærslu verkefna sem leitt geta til hagræðingar og skilvirkari stjórnsýslu, enda verði þær breytingar gerðar í fullu samráði og sátt við viðkomandi atvinnugrein.
Leiðir
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið fer með málefni þeirra atvinnugreina sem eru meginstoðir atvinnulífs í dreifðum byggðum landsins. Sérstök atvinnuvegaráðuneyti tryggja nánari tengsl viðkomandi atvinnugreina við stjórnsýsluna og færa hana nær grasrótinni.
Framgangur máls
Búnaðarþing 2011 felur stjórn BÍ að kynna ályktun Búnaðarþings fyrir forsætisráðherra, fjármálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ásamt því að vinna ályktuninni brautargengi
.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 lýsir áhyggjum af ótryggu rafmagni á starfssvæði Búnaðarsambands Vestfjarða og vill beina því til Orkubús Vestfjarða að hraða því verki sem hafið er í lagningu 3 fasa jarðstrengs um Barðaströnd og tengingu Inndjúps inn á landsnetið.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn að Reykhólum 16.apríl 2011 beinir því til Sjávarútvegs og Landbúnaðarráðherra og Sambands Íslenskra sveitarfélaga að hlutast til um að komið verði á samræmdu kerfi á landsvísu, er tekur á greiðslum og eyðingu á ref og mink og skráningu á unnum dýrum. Jafnframt verði unnið að því að samræma greiðslur vegna eyðingar á ref og mink um land allt.
Greinargerð:
Ófremdar ástand er að skapast varðandi eyðingu á ref og mink í landinu og skapast það meðal annars af því að víða er alls ekkert unnið í þessum málum en einnig vegna þess að ríkið hefur verið að skerða fjárframlög til þessa málaflokks og er nú svo komið að hið opinbera er alveg hætt að veita framlög til eyðingar á ref. Það er því fyrirsjáanlegt að mikil fjölgun mun verða á ref á næstu misserum ef ekkert er að gert og mun það án efa skaða fuglalíf sem meðal annars ferðaþjónusta á landsbyggðinni hefur nú orðið verulegar tekjur af
.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn að Reykhólum 16.apríl 2011 samþykkir fjárhagsáætlun 2011.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 mótmælir harðlega fram komnum hugmyndum um flutning hreindýra til Vestfjarða. Hreindýr virða engar girðingar og geta hugsanlega borið sjúkdóma milli varnarhólfa. Vestfjarðahólf eystra er laust við riðu- og garnaveiki, sá hreinleiki skapar sauðfjárafurðum þaðan aðgang að vissum erlendum mörkuðum og hólfið er eitt af mikilvægustu líflambasölusvæðum landsins.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 skorar á Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðherra að framfylgja 39.gr í lögum nr. 143/2009 er varðar dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum.
Tilvísun:
39. gr. í lögum nr 143/2009
Í því skyni að tryggja velferð dýra og dreifðum byggðum reglubundna dýralæknaþjónustu svo og bráðaþjónustu skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setja reglugerð um hvernig tryggja skal starfsaðstöðu og greiðslu staðaruppbótar og/eða ferðakostnaðar dýralæknis sem tekur að sér að veita slíka þjónustu. Við ákvörðun um hvar þörf er á opinberum greiðslum fyrir dýralæknaþjónustu skal ráðherra hafa samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun.

Úr Greinargerð um 39. gr.:
Til að tryggja dreifðum byggðum reglubundna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu verður að stuðla að því að fyrir hendi verði nauðsynleg starfsaðstaða fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna – m.a. á Vestfjörðum

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 samþykkir samþykktir nýstofnaðra búnaðarfélaga þ.e. Búnaðarfélagsins Bjarma og Búnaðarfélagsins Varðar.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 skorar á landbúnaðarnefnd alþingis að finna leið fyrir bændur sem verða fyrir áföllum af utan að komandi mengun sbr. Díoxín málið í Engidal, að þeir fái tjón sitt bætt á fullnægjandi hátt.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 skorar á stjórn Búnaðarsambands Vestfjarða að beita sér fyrir því að bændum verði bætt það tjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna mengunar frá Sorpbrennslunni Funa í Engidal.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 lýsir ánægju sinni með þá samvinnu sem verið hefur á milli Búnaðarsambands Vestfjarða og Búnaðarsamtaka Vesturlands og hvetur stjórn BSV til að vinna áfram á þeim nótum, einnig hvetur fundurinn til að haldið verði uppi umræðu um mögulegar breytingar á félagskerfi bænda.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 leggur til við sveitarfélög á starfssvæði sambandsins að finna hagkvæmar lausnir til förgunar hræja og sláturúrgangs sem til fellur á lögbýlum. Með því er hægt að koma í veg fyrir að bændur séu óviljandi að leggja út æti fyrir ref og vargfugl.

Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða haldinn á Reykhólum 16. apríl 2011 skorar á Hið íslenska náttúrfræðifélag að endurskoða plakatið „Íslenskir fuglar“ sem dreift hefur verið í grunnskóla landsins. Bent er sérstaklega á að þar vantar m.a. æðarfuglinn og landnámshænuna.