Bókhaldsþjónusta Búnaðarsamtaka Vesturlands felur í sér:
– Uppgjör á virðisaukaskatti tvisvar á ári og oftar ef þarf
– Gerð rekstrarreiknings ásamt fylgiskjölum
– Uppgjör landbúnaðarskýrslu (rekstrarreikning landbúnaðarins) ásamt fylgiskjölum og gerð persónuframtals
– Framlegðarútreikningar þar sem framlegð ársins er gerð upp og send bændum
Hagþjónusta landbúnaðarins fær til úrvinnslu uppgjör þeirra búa sem eru í bókhaldsþjónustu (undir rósanúmeri þannig að ekki er hægt að rekja hver er hvað) og eru niðurstöðurnar gefnar út í Búreikningum Hagþjónustunnar einu sinni á ári. Bændur verða að hafa samþykkt sjálfir hvort þeir vilji að þeirra niðurstöður séu sendar til úrvinnslu til Hagþjónustunnar.
Búrekstraráætlanir til fimm ára
Búrekstraráætlanir eru gerðar fyrir bændur sem þess óska. Oftast er um að ræða að áætlanir séu gerðar fyrir bændur sem eru að huga að framkvæmdum af einhverju tagi. Þeir sem sækja um lán til framkvæmda í Lánasjóð landbúnaðarins skila inn slíkri áætlun. En það hefur færst mjög í vöxt að bændur vilji gera slíka áætlun til þess að athuga þá möguleika sem þeir hafa til framtíðar til fjárfestinga og annarra framkvæmda, annað hvort með lánsfé og eða fyrir eigið rekstrarfé. Áætlanir sem þessar eru bændum mjög gagnlegar til þess einnig að hafa yfirsýn og aðhald á eigin rekstri.
Stöðugreining
Stöðugreining felur í sér að bókhald bænda er skoðað þrjú ár aftur í tímann til þess að meta hvernig rekstrarleg þróun búsins hefur verið. Niðurstöður eru bornar saman við hliðstæð bú úr Búreikningum Hagþjónustu landbúnaðarins. Við slíka skoðun kemur oft í ljós hvort þörf er á frekari ráðgjöf á einhverjum sviðum og eftirfylgjandi áætlanagerðum. Hér má nefna t.d. áburðaráætlun, fóðrunarleiðbeiningar o.fl. Stöðugreining sýnir:
– Hvar bæta þarf reksturinn
– Hvar vel hefur til tekist í rekstrinum
– Lausafjárstöðu búsins
– Skuldastöðu búsins
– Afurðasemi búfjárins
– Raunverulega launagreiðslugetu búsins (ekki reiknuð laun)
– Þörf á frekari ráðgjöf og áætlanagerðum
– Framlegðarstig og öryggismörk rekstrarins
Bóndinn skilar inn skýrslum s.l. þriggja ára (sé hann ekki í bókhaldi hjá BV) og ráðunautur heimsækir síðan bóndann og fer yfir niðurstöðurnar með honum og metur stöðuna í samráði við hann.
Leiðbeiningar við gagnaflutninga (öryggisafritun) í dkBúbót
|