Betri bú

Betri Bú
Betri bú – markmiðstengdar búrekstraráætlanir er verkefni sem hefur það að meginmarkmiði að bæta afkomu í landbúnaði með aðstoð rekstrargreiningar og áætlanagerðar. Bændasamtök Íslands og búnaðarsamböndin vinna saman að þessu verkefni en það nýtur fjárstuðnings úr ríkissjóði samkvæmt búnaðarlagasamningi.

Á árinu 1999 var hafin vinna við verkefnið “Betri bú” á vegum Búnaðarsamtaka Vesturlands þar sem bændum var boðið upp á búrekstraráætlun fyrir sitt bú. Fljótlega urðu þátttakendur 25 en þeim fjölgaði ört og í byrjun árs 2005 voru þátttakendur orðnir 82 talsins. Nú í byrjun árs 2007 hefur þeim fjölgað einn meira og eru orðnir 99 talsins. Á árinu 2006 bættust 21 nýir Betri-bú bændur í hópinn.

Ákveðnar lágmarkskröfur þarf að uppfylla til að njóta framlags samkvæmt búnaðarlagasamningi. Þær eru:
Skriflegur samningur milli bónda og búnaðarsambands
Rekstrargreining – möguleikar, styrkleikar og veikleikar
Langtímaáætlun – grundvallarstefna rekstrarins
Mælanleg og tímasett rekstrarmarkmið til lengri og skemmri tíma
Fjárhagsáætlun til a.m.k. 3ja ára með greinargerð
Aðgerðaáætlanir sem ná yfir einstakar aðgerðir og framkvæmdir sem stuðla að því að rekstrarmarkmið nái fram að ganga. Aðgerðaáætlanir skulu vera að minnsta kosti tvær og þeim skal fylgja skrifleg greinargerð. (Dæmi um aðgerðaráætlanir eru; fóðuráætlun, ræktunaráætlun (kornrækt, grænfóður), áætlun um bætt heilbrigði áburðar- og jarðræktaráætlun, áætlun um vélanýtingu, fjárfestingar, vinnuafl, fjármagnskostnað og fleira þess háttar)
Skráningar á ráðgjöf ráðunauta vegna rekstrarins á samningstímanum
Tillögur og úrbætur munu taka til ofangreindra liða eftir því sem við á hverju sinni. Miðað er við að bóndi (rekstraraðilar búsins) og ráðunautur hittist á fundi a.m.k. einu sinni á ári þar sem farið er yfir málin í sameiningu, metið hvernig til hefur tekist, mótuð stefna og markmið sett til næstu ára

Verkefni þetta hentar öllum bændum sem vilja vera í samstarfi við ráðunauta og nýta sér þekkingu þeirra til að ná betri tökum á rekstrinum í nútíð og framtíð.

Þeir sem hafa áhuga á þessu verkefni eru beðnir um að hafa samband við skrifstofuna á Hvanneyri í síma 437-1215.